Líkt og greint var frá í morgun gera yfirvöld ráð fyrir að áhættumat Ríkislögreglustjóra verði hækkað í hæsta stig í aðdraganda leiðtogafundar Evrópuráðsins sem fram fer í Reykjavík dagana 16. til 17. maí næstkomandi.
Borgarráð samþykkti í síðustu viku samkomulag um verklag og forgangsröðun við kaup, uppsetningu og rekstur á öryggismyndavélakerfi í miðborg Reykjavíkur.
Ásgeir Þór Ásgeirsson, aðstoðarlögreglustjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir að óhætt sé að halda því fram að „fundurinn hafi sparkað lögreglu aðeins af stað með þetta verkefni sem var í dvala.“

„Þetta verkefni hefur verið í gangi núna í ætli það sé ekki á fimmta ár, það var löngu komið í gang fyrir covid. En svo lognaðist sú vinna út af þegar heimsfaraldurinn dundi á okkur. Það var bara svo margt sem þurfti að koma af stað aftur að þetta hefur farist fyrir.“ segir Ásgeir.
Fjölmörg svæði óvöktuð
Ásgeir segir myndavélar gegna afar mikilvægu hlutverki og þær eigi stóran þátt í að upplýsa fjölmörg mál. Hins vegar séu alltof mörg svæði sem eru ekkert vöktuð.
„Til dæmis er Lækjargatan meira og minna ekki vöktuð. Hafnartorgið er náttúrulega nýtt og þar er engin vöktun.“
Ekkert þarna í nýju húsunum við Landsbankann, Edition hótelið og þessi nýju hús út að Hörpunni, það er engin vöktun þar.
Verkefnið teiknað upp í kjölfar morðsins á Birnu Brjánsdóttur
Eins og Ásgeir tók fram var verkefnið teiknað upp fyrir fjórum árum síðan. Það var gert í kjölfar hvarfsins og morðsins á Birnu Brjánsdóttur árið 2017.
„Þá var gagnrýnt að myndavélakerfi lögreglunnar eða myndavélakerfin í miðbænum væri ekki nægilega gott og væri götótt. Það var eftir það sem þessi vinna fór af stað, teiknun á svæðum sem við sáum ekki.“
Ásgeir segir að í því tilfelli hafi sérstaklega skort myndavélar sem lesa bílnúmer. Enn í dag eru engar slíkar myndavélar í miðborg Reykjavíkur heldur aðeins á mörkum Reykjavíkur og sveitarfélaganna í kring.
Það stendur nú loks til bóta.