Ekki kemur fram í hvaða landi maðurinn var dæmdur fyrir manndrápstilraunina. Í héraðsdómi kom hins vegar fram að hætta væri talin á því að maðurinn kynni að reyna að komast úr landi ef honum yrði ekki gert að sæta gæsluvarðhaldi. Hann væri erlendur ríkisborgari með takmörkuð tengsl við Ísland. Þá hafi hann vísvitandi verið í felum og komið sér undan lögreglu.
Þá sagði í greinargerð með kröfu lögreglustjóra að maðurinn væri talinn hættulegur þar sem hann hefur hlotið þungan fangelsisdóm í útlöndum fyrir mjög alvarlegt brot. Réðst hann ásamt öðrum manni á brotaþola með kylfu, glerflöskum og sveðju. Taldi lögreglustjóri að gæsluvarðhald væri því einnig nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.
Efnislegri meðferð á umsókn um alþjóðlega vernd synjað
Héraðsdómur Reykjaness úrskurðaði manninn í fjögurra vikna gæsluvarðhald fyrir tæpri viku. Lögmaður mannsins krafðist þess að Landsréttur myndi fella úrskurð héraðsdóms úr gildi en til vara að vægari úrræðum verði beitt að því frágengnu að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Landsréttur taldi að það mætti ætla að maðurinn myndi reyna að komast úr landi, leynast eða koma sér með öðrum hætti undan fullnustu refsingar. Þá var tekið til hliðsjónar að Útlendingastofnun synjaði manninum í nóvember síðastliðnum um efnislega meðferð á umsókn hans um alþjóðlega vernd.
Úrskurður Útlendingastofnunar var staðfestur með úrskurði kærunefndar útlendingamála og frestun réttaráhrifa var svo hafnað. Í kjölfar þess fór maðurinn huldu höfði í rúman mánuð en var svo handtekinn eftir ítarlega rannsókn.
Þá segir í úrskurði Landsréttar að vægari þvingunarráðstafanir muni ekki koma að haldi við að tryggja að maðurinn komi sér ekki undan málsmeðferð. Úrskurður héraðsdóms var því, sem fyrr segir, staðfestur.