Stýrivaxtahækkanir hafa lagst þyngst á þá sem eru með óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum. Magnús Sigurjón Olsen Guðmundsson sem skrifaði á Twitter í morgun að afborganir af slíku húsnæðisláni hans hafi hækkað úr 160 þúsund krónum á mánuði í 260 þúsund krónur á einu og hálfu ári.
Fyrir hönd viðskiptavina með breytilega vexti á óverðtryggðu láni vil ég þakka þér Herra Ásgeir Jónsson. Kjarasamningslotan í haust mun verða þung. Allt undir 25% launahækkun er ekki í boði 🧠 pic.twitter.com/JcOmzaVuL4
— Maggi Peran (@maggiperan) March 22, 2023
„Þetta er að lenda á okkar fólki. Það er mikil aukning í útgjöldum heimilanna sem við þurfum að bregðast við. Það þarf að finna leiðir til að verja stöðu heimilanna,“ segir Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti Alþýðusambands Íslands.
Grípa þurfi til sértækra aðgerða fyrir viðkvæmustu hópana: þá sem eru nýir á fasteignamarkaði, fólk á leigumarkaði og tekjulág heimili.
„Með húsnæðisstuðningi, barnabótum, með slíkum greiðslum til að létta undir þessum hópi og það er jafnvel hægt að beita skattkerfisbreytingum til að létta undir.“
Fyrirtæki og opinberir aðilar þurfi að draga inn seglin
Seðlabankinn beindi því til fyrirtækja í morgun að hætta að fjárfesta jafn mikið og þau hafa gert undanfarið. Hann tekur undir það.
„Til að slá á þenslu þá er það ekki fólkið með lægstu launin sem er að valda þenslunni sökum þess að fólk hefur ekki svigrúm til þess. Það er að kaupa nauðsynjar en lítið annað. Þarna eru fyrirtæki og opinberir aðilar sem þurfa að taka þetta til sín til að berjast gegn þeirri þenslu sem er á markaði,“ segir Kristján.
Þá birtu Samtök atvinnulífsins í dag yfirlýsingu þess efnis að hið opinbera verði að leggja Seðlabankanum lið. Von er á fjármálaáætlun á næstunni og segja SA að þar geti stjórnvöld lagt þung lóð á vogarskálarnar gegn verðbólgunni með aðhaldssamri stefnu. Kristján tekur undir þetta og nefnir þar sérstaklega skatta á eignamikla.
Þú myndir vilja sjá hvalrekaskatt?
„Já, ég held það sé bara mjög mikilvægt fyrir samfélagið að líta til þess að fjármagnið þar sem það er til og nota til að styðja við fólkið í landinu.“