Í fyrradag sögðum við frá 82 ára konu sem þurfti að selja húsið sitt til að greiða upp námslán sonar hennar sem hún gekk í ábyrgð fyrir á tíunda áratugnum. Ein krafa stendur eftir og hyggst sýslumaður nú framkvæma fjárnám hjá henni vegna skuldarinnar. Líkt og við höfum greint frá hefur þetta ábyrgðarmannakerfi nú verið lagt af en þó ekki afturvirkt í tilviki þeirra lána sem voru í vanskilum og situr því hópur eldra fólks eftir, sumt með miklar skuldir á bakinu, vegna kerfis sem í dag þykir ekki ástæða til að viðhafa.
„Maður hefur auðvitað mjög mikla samúð með þessari konu og þeim eldri borgurum sem hafa lent í því að hafa skrifað upp á lán og standa eftir í miklum skuldum vegna þessa. Og maður skilur að fólki finnist þetta óskiljanlegt, að þarna sé gengið á eftir ábyrgðarmönnum sem skrifuðu upp á lán,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskólaráðherra.
Háskólaráðherra hefur þess vegna óskað eftir gögnum um þennan hóp ábyrgðarmanna sem skilinn var eftir þegar kerfið var lagt af.
„Af hverju þessi hópur var skilinn eftir? Hvað er þessi hópur stór? Og hvernig gengur að innheimta? Það virðist vera að innheimta á þessum ábyrgðum gangi mjög illa og borgi sig eiginlega varla. Þess vegna hef ég óskað eftir betri gögnum um þennan hóp og er búin að taka þetta inn í umræðu um endurskoðun á núverandi lögum.“
Líkt og fram kom í frétt okkar í gær nemur heildarupphæð þeirra ábyrgða sem enn hvíla á lánasjóðnum, eftir niðurfellingu þeirra, um fjórum milljörðum króna og árið 2021 var farið í aðfarargerðir hjá 105 ábyrgðarmönnum og í öllum tilvikum var fjárnám árangurslaust.
„Þarna sést alveg svart á hvítu að það innheimtist mjög lítill hluti af því sem er útistandandi gagnvart þessum ábyrðgarmönnum og það gefur alveg tilefni til endurskoðunar.“