Ráðamenn í Kína hafa brugðist reiðir við og vara Bandaríkjamenn við því að hitta Tsai. Þeir hafa heitið því að bregðast við mögulegum fundi Tsai og McCarthy.
Áður en Tsai lagði af stað í morgun sagði hún að Taívanar myndu halda áfram að eiga í samskiptum við umheiminn, þrátt fyrir utanaðkomandi þrýsting.
„Við erum róleg og sjálfsörugg,“ sagði hún. „Við munum hvorki gefast upp né ögra. Taívan mun ganga örugglega út í heiminn á vegi frelsis og lýðræðis. Þó þessi vegur geti reynst torfarinn er Taívan ekki eitt.“
Kínverjar hafa beitt þau fáu ríki sem eiga í formlegu stjórnmálasambandi við Taívan gífurlegum þrýstingi á undanförnum árum. Örfá ríki heimsins eiga í slíku sambandi við Taívan. Á meðal þeirra eru Gvatemala og Belís en Tsai er samkvæmt Reuters á leið þangað með viðkomu í bæði New York og Los Angeles.
Sjá einnig: Enn fækkar þeim ríkjum sem styðja Taívan
Í stuttu máli sagt þá gera Kínverjar tilkalls til Taívan. Árið 1949 flúðu þjóðernissinnar til eyjunnar undan kommúnistum í borgarastyrjöld landsins. Ráðamenn í Kína hafa heitið því að sameina ríkin og með valdi ef svo þarf. Þeirra á meðal er Xi Jinping, forseti Kína.
Taívanar hafa aldrei lýst yfir formlegu sjálfstæði en sjálfstæðissinnum hefur vaxið ásmegin þar á undanförnum árum.
Kínverjar hafa beitt Taívan sífellt meiri þrýstingi á undanförnum árum og hafa verið sakaðir um að reyna að draga máttinn úr verjendum eyjunnar með óhefðbundnum hernaði. Málefni eyríkisins á stóran þátt í versnandi samskiptum Bandaríkjanna og Kína á undanförnum árum.
Taívan hefur staðið frammi fyrir mögulegri innrás frá Kína í áratugi. Undanfarin ár hafa þó orðið mikilvægar breytingar sitthvoru megin við Taívansund. Samhliða því að sjálfstæðissinnum hefur vaxið ásmegin í Taívan, hefur geta herafla ríkisins dregist saman. Hernaðargeta Kínverja hefur á sama tíma aukist til muna.
Bandaríkjamenn hafa um árabil átt í umfangsmiklum en óformlegum samskiptum við Taívan. Bandaríkin eru skuldbundin til að koma Taívan til aðstoðar í tilefni innrásar Kína en ráðamenn vestanhafs hafa í gegnum tíðina haldið öllum möguleikum opnum þegar kemur að því í hverju slík aðstoð gæti falist og hvort að Bandaríkin myndu beita herafla sínum.
Á ensku hefur þessi stefna verið kölluð „strategic ambiguity“ sem hægt er að íslenska sem strategíska tvíræðni. Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, hefur gefið í skyn að Bandaríkjamenn myndu aðstoða Taívan hernaðarlega.
Sjá einnig: Segir ummælin ekki marka breytta stefnu gagnvart Taívan
Ætla að bregðast við mögulegum fundi
Kínverjar krefjast þess að engir bandarískir embættismenn hitti Tsai. Þeir eigi ekki að vera í samskiptum við embættismenn í Taívan, þar sem þeir hafi heitið því að styðja ekki sjálfstæði Taívans. AP fréttaveitan hefur eftir talskonu sameiningarráðuneytis Kína að yfirvöld þar muni bregðast við, verði áðurnefndur fundur haldinn.
Nancy Pelosi, þáverandi forseti Fulltrúadeildarinnar, ferðaðist til Taívan í fyrra. Sú heimsókn reiddi ráðamenn í Kína til reiði og brugðust þeir við með umfangsmiklum heræfingum við Taívan.