Reykjavíkurskákmótið verður sett í Hörpu klukkan þrjú í dag þar sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri leikur fyrsta leik mótsins sem stendur yfir í viku. Gunnar Björnsson forseti Skáksambands Íslands segir metfjölda karla og kvenna taka þátt í mótinu að þessu sinni.
„Mér sýnist samkvæmt nýjustu tölum að þetta verði yfir fjögur hundruð þátttakendur. Fyrra met var 272 þannig að þetta eru ótrúlegar tölur.“

Hvað skýrir þennan mikla áhuga á Reykjavíkurskákmótinu?
„Ísland er náttúrlega vinsælt. Svo hjálpar afmælishátíðin í fyrra (þegar 50 ár voru liðin frá einvígi aldarinnar). En svo er skáksprengja í gangi í heiminum. Það er gríðarlegur áhugi á skák í heiminum. Hefur bara aukist jafnt og þétt undanfarna mánuði,“ segir Gunnar.
Íslendingar eru fjölmennastir á mótinu með 85 keppendur en Þjóðverjar fjölmennastir erlendra gesta með 60 skákmenn. Keppendur koma frá 47 ríkjum, þeirra á meðal Kasakstan, Singapore, Ástralíu og Sri Lanka.
Gunnar segir að reikna megi með um fjögur þúsund gistinóttum á hótelum borgarinnar vegna mótsins. Reykjavíkurskákmótið, sem fyrst var haldið árið 1964, hafi sterka stöðu í skákheiminum.

„Reykjavíkurskákmótið er eitt stærsta opna skákmótið í heiminum. Ég myndi setja það á topp þrjú og jafnvel ofar. Þetta þykir eitt merkilegasta og flottasta mótið og eitt það sögufrægasta.“
Og aldrei fleiri stórmeistarar en núna?
„Nei, þrjátíu og fjórir. Það slagar upp í að vera 10 prósent keppenda sem er býsna gott,“ segir forseti Skáksambands Íslands.
Sex þeirra eru íslenskir, þeirra á meðal nýjasti íslenski stórmeistarinn Vignir Vatnar Stefánsson og Lenka Ptácníková stórmeistari kvenna. Stigahæstur keppenda er úkraínska goðsögnin Vasyl Ivanchuk og af öðrum sterkum má nefna Svíann Nils Grandelius og Aryan Tari frá Noregi.
Gunnar segir Ivanchuk sigurstranglegastan þótt óvænt tíðindi geti alltaf gerst. Mótinu lýkur þriðjudaginn 4. apríl.