Í þessari sex þátta seríu er fjallað um flestallt sem snýr að tvíburum allt frá því líffræðilega undri sem á sér stað þegar tvíburar verða til yfir í þau sterku tengsl sem virðast fylgja flestum tvíburapörum út lífið.
Frumsýningargestir virtust skemmta sér konunglega á sýningunni en meðal gesta mátti sjá Ragnhildi Gísladóttur, Ólaf Egilsson, Birgittu Haukdal, Evu Laufeyju Hermannsdóttur, Birnu Einarsdóttur, Eddu Hermannsdóttur, Loga Bergmann, Ingu Lind Karlsdóttur, Sigrúnu Ósk Kristjánsdóttur og Unnstein Manuel Stefánsson. Í þetta skiptið voru það hinsvegar ekki þessi landskunnu andlit sem fönguðu athygli ljósmyndarans heldur voru það þeir fjölmörgu tvíburar sem voru samankomnir. Ragnar Visage smellti myndum af nokkrum þeirra.
Sýnt frá tvíburafæðingu
Í fyrsta þættinum var meðal annars fylgst með tvíburafæðingu en bíógestir ýmist gripu fyrir augun, grétu eða fögnuðu þegar þeir urðu vitni að þeirri kraftaverka frammistöðu sem Alexandra Ósk Jónsdóttir sýndi þegar hún kom dætrum sínum í heiminn með einlægum stuðningi frá barnsföður sínum Arnari Hlyni Elliot Magnússyni.
Þættirnir eru unnir af tveggja manna teymi, þeim Ragnhildi Steinunni og Eiríki Inga Böðvarssyni. TVÍBURAR hefjast á RÚV á annan í páskum.














