Konurnar Gwen Hunter og Denise Shipes kærðu Foreman í ágúst á síðasta ári fyrir brot sem áttu sér stað seint á sjöunda og snemma á áttunda áratugnum. Þær segja Foreman hafa tælt sig og síðan misnotað kynferðislega. Þær voru þá báðar enn börn en Foreman þrítug rísandi boxstjarna.
Konurnar segja að Foreman hafi málað þær upp sem lygara og illmenni þegar hann kærði þær til baka í gagnsókn þar sem hann sakaði þær um fjárkúgun. Þær segjast hafa staðist lygamælispróf og vilja nú að Foreman taki sjálfur sams konar próf.
Lögmaður kvennanna segir þær hafa gengist undir lygamælispróf hjá helsta sérfræðingi heims á því sviði, sérfræðingi sem lögfræðingar Foreman hafa áður notað í fyrri dómsmálum.
Segir Foreman hafa hótað föður sínum starfsmissi
Önnur kvennanna, Gwen Hunter, hélt blaðamannafund í nóvember þar sem hún greindi frá ásökununum. Þar lýsti hún því hvernig Foreman hótaði að láta reka föður hennar úr starfi ef hún færi ekki úr fötunum. Hún hafi þess vegna látið undan.
Í kjölfarið höfðaði Foreman gagnsókn gegn Hunter og sagði hana velta nafni sínu upp úr svaðinu og ljúga til að hafa af honum pening.
Lögmaður kvennanna segir þær vera að undirbúa gagnsókn vegna meiðyrða og skaðlegra yfirlýsinga um fjárkúgun. Þess ber að geta að myndin Big George Foreman sem fjallar um ævi boxarans á að koma út eftir aðeins þrjár vikur.