Þór, sem hefur verið á flakki um Evrópu síðustu mánuði, flatmagaði á flotbryggju í bænum í gærmorgun. Samkvæmt sjónarvottum virtist hann nokkuð þreyttur og lúinn, enda sennilegt að hann hafi átt langt ferðalag að baki.
Nú er hann hins vegar farinn aftur, en Hilma Steinarsdóttir, skólastjóri Grunnskólans á Þórshöfn, segir afar ánægjulegt að hafa fengið Þór í heimsókn.
„Það var mjög líflegt hérna í gær. Þetta var virkilega skemmtilegur dagur og mikið af fólki sem býr í þorpunum í kring sem kom. Ég veit að þetta var alveg tvöfaldur dagur í N1 skálanum. Það voru margir ferðamenn og aðkomufólk sem kom og kíkti á hann,“ segir Hilma.

Áður en það fékkst staðfest að um Þór, sem heimsótti Breiðdalsvík í febrúar, væri að ræða höfðu einhverjir bæjarbúar látið sér detta í hug að þetta væri sannarlega hann.
„Það var nú kannski bara ágiskun fyrst hann var búinn að vera á Austfjörðum. Þetta er svo sem ekki algengt, að þeir séu hér við Íslandsstrendur.“
Hilma segir sérstaklega gaman að Þór hafi lagt leið sína til Þórshafnar, sökum nafns hans.
„Það er svolítið skemmtilegt. Þórshöfn er auðvitað heiðurshöfn varðskipsins Þórs og við bjóðum alla velkomna, sérstaklega alla Þóra,“ segir Hilma.
Þá hafi verið ákveðið lærdómsgildi í heimsókninni fyrir yngri kynslóðina.
„Þetta er góð kveikja fyrir grunnskólann að vinna með í framhaldinu, að læra meira um rostunga. Það verður rostungaþema hjá okkur í næstu viku,“ segir Hilma að lokum.