Þær Kristrún Steinþórsdóttir og Lena Margrét Valdimarsdóttir hafa samið við handknattleiksdeild félagið til næstu tveggja ára. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.
Kristrún Steinþórsdóttir er rétthent skytta og er uppalin Selfyssingur. Hún spilaði með Selfoss til ársins 2019 þegar hún söðlaði um og fór í Fram. Hún á að baki 139 leiki fyrir Selfoss og hefur skorað í þeim 401 mark. Hún hefur verið lykilmaður í sterku liði Fram síðustu ár þar sem hún hefur m.a. orðið Íslandsmeistari í fyrra og bikarmeistari árið 2020. Þá á hún þrjá A-landsleiki að baki.
Lena Margrét er örvhent skytta og er uppalin í Fram en hefur leikið síðustu tvö ár með Stjörnunni. Hún á að baki Íslandsmeistaratitil með Fram 2018 auk bikarmeistaratitla árið 2018 og 2020. Hún var ein af markahæstu leikmönnum Olísdeildar kvenna með 109 mörk í 21 leik. Þá hefur hún spilað 5 A-landsleiki og skorað í þeim þrjú mörk auk þess að hafa verið fastamaður í öllum yngri landsliðum Íslands.
Á dögunum samdi landsliðskonan Perla Ruth Albertsdóttir við Selfoss sem hafnaði í næstneðsta sæti Olís deildarinnar í vetur og eru raunar ekki öruggar með sæti í deild þeirra bestu á næstu leiktíð þar sem þeirra bíður umspil um laust sæti í Olís deildinni.