Benedikt átti drjúgan þátt í deildarmeistaratitli Valsmanna en náði ekki síðustu leikjunum vegna meiðsla. Hann staðfesti við Handkastið að hann myndi ekki spila meira á leiktíðinni, vegna meiðsla í nára, og óvíst er að Benedikt geti spilað með íslenska landsliðinu á HM U21-liða sem fram fer í Þýskalandi og Grikklandi frá 20. júní til 2. júlí.
„Ég er frá út tímabilið,“ svaraði Benedikt aðspurður. „Það er eiginlega hræðilegt. Ég slapp við að fara í aðgerð en þetta tekur líklega þrjá mánuði svo að ég næ engu meira,“ sagði Benedikt.
Meiðslin gætu haft sín áhrif á það hvort að Benedikt fer í atvinnumennsku í sumar en hann gaf þó loðin svör um það hvort að hann yrði áfram í herbúðum Vals:
„Það er bara spurning. Ég held það en það verður að koma í ljós.“
Án Benedikts eru Valsmenn ekki eins líklegir til að verja Íslandsmeistaratitilinn og með fleiri öfluga leikmenn á meiðslalistanum hefur Valur misst flugið síðustu vikur. Telur Benedikt að liðið geti bætt úr því í úrslitakeppninni?
„Við verðum að gera það og ég trúi því að við getum það. Menn þurfa að ná sér í gang og þá kemur þetta,“ sagði Benedikt. Hann var ánægður með hvernig til tókst við að ná þeim markmiðum sem hann setti sér fyrir tímabilið, en Benedikt fór ekki bara á kostum í Olís-deildinni heldur einnig í baráttu við sterk lið í Evrópudeildinni:
„Ég hefði viljað klára úrslitakeppnina en annars kom ég sjálfum mér eiginlega á óvart í Evrópukeppninni og hélt dampi í deildinni,“ sagði Benedikt en hægt er að hlusta á nýjasta þátt Handkastsins hér að ofan.