Þetta kemur fram í úrskurði kærunefndar vöru og þjónustukaupa sem kveðinn var upp í lok síðasta mánaðar.
Í úrskurðinum kemur fram að viðskiptavinurinn hafi átt bókaða tíu daga ferð fyrir sig og samferðafólk sitt dagana 20. til 30 ágúst 2022. Sjö þúsund evra staðfestingargjald, rúm milljón króna, hafði þá verið greitt í janúar.
Náði ekki samband við fulltrúa fyrirtækisins
Um samskipti viðskiptavinarins og ferðaþjónustufyrirtækisins segir að þau hafi átt í tíðum samskiptum á Messenger frá október 2021 og þar til að staðfestingargjaldið var greitt í janúar 2022. Í aðdraganda ferðarinnar, sumarið 2022, hafi viðskiptavinurinn ítrekað reynt að vera í samskiptum við fyrirtækið en án árangurs.
Tölvupóstur hafi svo borist frá fyrirtækinu 6. ágúst, tveimur vikum fyrir áætlaða brottför, þar sem tilkynnt var að ákveðið hafi verið að aflýsa ferðinni vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Á þeim tímapunkti var þó löngu búið að aflétta samkomutakmörkunum bæði á Íslandi og á Grænlandi og gaf fyrirtækið viðskiptavininum ekki nánari skýringar á ákvörðuninni.
Fyrirtækið bauð þó viðskiptavininum endurgreiðslu á staðfestingargjaldinu sem hann þáði. Endurgreiðslan barst þó aldrei og ákvað viðskiptavinurinn í kjölfarið að leita til kærunefndarinnar.
Halda ber gerðum samningum
Ferðaþjónustufyrirtækið skilaði engum gögnum eða svörum til kærunefndarinnar við meðferð málsins og byggði niðurstaðan því á upplýsingum og gögnum frá viðskiptavininum sem hann hafði lagt fram.
Í úrskurðinum segir að meginregla samningaréttar sé sú að gerða samninga beri að halda. „Í málinu liggur fyrir að varnaraðili [ferðaþjónustufyrirtækið] hætti sjálfur við hina keyptu ferð og bauðst til að endurgreiða sóknaraðila [viðskiptavininum] hið greidda staðfestingargjald. Hefur varnaraðili ekki staðið við það boð sitt. Verður því fallist á kröfu sóknaraðila,“ segir í úrskurðinum.
Auk þess að endurgreiða staðfestingargjaldið til viðskiptavinarins var fyrirtækinu gert að endurgreiða honum fimm þúsund króna málskotsgjald, auk þess að greiða 35 þúsund króna málskostnaðargjald.