Á síðustu vikum hefur Arnar Birkir verið orðaður við lið ÍBV í Olís-deildinni. Arnar Daði Arnarsson, umsjónarmaður Handkastsins og sérfræðingur Seinni Bylgjunnar á Stöð 2 Sport, greindi frá því í byrjun apríl að það myndi skýrast fljótlega hvort Arnar Birkir myndi ganga til liðs við ÍBV. Eyjamenn þurfa nýjan mann í skyttustöðuna því Rúnar Kárason mun ganga til liðs við Fram fyrir næstu leiktíð.
Í morgun skrifaði Arnar Daði síðan á Twitter að Arnar Birkir væri að velja á milli ÍBV og sænska liðsins Amo sem verða nýliðar í sænsku úrvalsdeildinni á næsta tímabili. Arnar Daði segir að Amo sé með fleiri Íslendinga undir smásjánni.
Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Sérfræðingsins eru Eyjamenn enn að bíða eftir svari frá Arnari Birki. Arnar Birkir er að velja á milli ÍBV og sænska liðsins Amo sem verða nýliðar í sænsku úrvalsdeildinni á næsta tímabili. Amo er með fleiri Íslendinga undir smá sjánni. #Handkastið https://t.co/5AokO1Ckms
— Arnar Daði (@arnardadi) April 16, 2023
Arnar Birkir Hálfdánsson hefur leikið með Ribe-Esbjerg síðan í haust en hann er uppalinn hjá Fram. Arnar Birkir hefur einnig leikið með þýska liðinu Aue þar sem hann raðaði inn mörkum í næst efstu deild sem og danska liðinu Sönderjyske.
Arnar Birkir hefur yfirleitt leikið í stöðu hægri skyttu en þegar hann gekk til liðs við Ribe-Esbjerg sagði þjálfarinn að hann hugsaði hann í stöðu hornamanns.