Helga Guðrún Gunnarsdóttir, íþrótta-og heilsufræðingur er talsmaður hópsins. Hún starfar hjá Kópavogsbæ sem þolfimisþjálfari og heldur utan um tíma í þolfimi í vatni sem fram fara í Kópavogslaug. Hún segir í samtali við Vísi að Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, hafi tekið vel á móti sér í ráðhúsinu.
Þurfa að klöngrast upp tvær stáltröppur
„Það hefur verið mikil óánægja meðal sundlaugargesta með þennan kalda pott. Hann var í raun hugsaður til bráðabirgða og ég var alltaf að heyra af þessari óánægju, svo ég ákvað bara að ganga í málið,“ segir Helga Guðrún en potturinn er afar lítill og komast einungis tveir fyrir í honum.
Hún bendir á að stíga þurfi upp tvær járntröppur og svo klofa yfir brún kalda pottsins til þess að komast í hann. „Það sækja 1500 manns laugina á hverjum degi og fólk hefur talað um þetta lengi, því það eru ýmsir sundlaugagestir sem geta ekki komið sér í pottinn, eru kannski með stálmjöðm eða þess háttar.“

Því hafi Helga gengið í verkið og voru íbúar fljótir að flykkja sér að baki málstaðnum og skrá nafn sitt á undirskriftarlistann. Helga tekur fram að Kópavogsbær sé heilsueflandi bær og hafi haldið á slíkum málum af myndarskap undanfarin ár.
„Þetta er nefnilega svo mikil heilsulind. Kaldur pottur bætur heilsu og Kópavogsbær hefur alltaf sinnt þessum málum vel. Það er í raun sparnaður fólginn í því að koma nýjum potti fyrir og infrarauðum klefa því bærinn fær þetta borgað margfalt til baka með bættri heilsu fólks.“
Rennibrautir og flísar endurnýjaðar
Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogsbæjar, segir í svörum við fyrirspurn Vísis vegna málsins að frábært sé að finna fyrir áhuga þeirra 600 íbúa sem skrifa undir áskorunina.
„Við erum að sjálfsögðu alltaf tilbúin að hlusta á það sem má gera betur og tökum vel í góðar tillögur er snúa að því að bæta bæinn okkar.“
Gert sé ráð fyrir því í fjárhagsáætlun þessa árs að rennibrautir og flísar á útilaugum Kópavogslaugar verði endurnýjaðar.
„En við erum bundin af áætlun hvers árs. Það verður því klárlega tekið tillit til þessara ábendinga í vinnu næstu fjárhagsáætlunar.“