Þar kemur fram að jarðskjálftahrina hafi hafist klukkan 09:41 norðaustarlega í öskju Kötlu og mældust þrír skjálftar yfir 4 að stærð. Í tilkynningu almannavarna kemur fram að um sé að ræða óvenju stóra jarðskjálfta.
„Og því rétt að fylgjast með framvindunni og hvort annað fylgi í kjölfarið. Hvorki hefur þó mælst gosórói né hlaupórói.“
Vegi lokað að Kötlujökli
Þá kemur fram í tilkynningunni að lögreglan hafi í ljósi þessa ákveðið að loka veginum inn að Kötlujökli.
„Í kringum Kötlu er mælanet sem samanstendur meðal annars annars af jarðskjálfta-, aflögunar- og vatnamælum. Þessir mælar eru vaktaðir allan sólarhringinn af náttúruvársérfræðingum Veðurstofunnar og gefnar út tilkynningar ef snöggar breytingar verða á þeim sem mætti túlka sem skammtímafyrirboða að eldgosi eða jökulhlaupi, t.d. órói á jarðskjálftamælum.“
Tekið er fram að enginn slíkur órói sjáist á mælum núna. Ekki sé hægt að fullyrða neitt um það hvernig þróunin virkninnar verður og fylgist náttúruvárvöktun Veðurstofunnar áfram náið með málum.
Almannavarnir leggja áherslu á að fólk þekki til viðbúnaðar og viðbragðs vegna náttúruhamfara til að draga úr áhrifum eins og unnt er. Eins og komið hefur fram hjá Veðurstofu Íslands hefur enginn gosórói mælst og engar vísbendingar um að hlaup sé hafið undan jöklinum.
Ekki er þó talið ráðlagt að vera við rætur Kötlujökuls vegna mögulegs gasútstreymis og hlaupavatns í farvegi Múlakvíslar.
Að öðru leyti á þessi jarðskjálftahrina ekki að raska daglegu lífi fólks, að því er segir í tilkynningunni.