Frá þessu greina samtökin Villikettir í færslu á Facebook-síðu sinni. Þeim hafði borist ábending um kött í bílakjallara í Katrínartúni í Reykjavík. Þar fannst Beygla og var hún glorhungruð. Þannig tókst að sannfæra hana um að fara í ferðabúr og borða nammi en tóku þær aðgerðir um klukkutíma.
Þegar tókst að skanna örmerki Beyglu kom í ljós að hún væri frá Hellu og hafði verið týnd í tíu daga. Er hún nú í góðu yfirlæti hjá Villiköttum og fær far austur við fyrsta tækifæri.
„Takk þið öll sem látið ykkur kisur varða, þið hjálpið kisum eins og Beyglu að komast heim til sín. Allt er gott sem endar vel og við hjá Villiköttum förum svo sannarlega ánægð inn í helgina,“ segir í Facebook-færslu Villikatta.