Allur gróður á Suðurlandi hefur tekið mjög vel við sér síðustu daga enda búið að vera nokkuð hlýtt og væta. Það hefur komið þó einn og einn þurr dagur, sem hefur gert mikið fyrir bændur og búalið eins og Reynir Þór Jónsson bóndi á Hurðarbaki í Flóa þekkir.
„Vorið er bara núna loksins eftir snjóinn komið af stað. Það er hins vegar klaki á jörðu og okkur gengur illa að komast um tún með áburð, plóg og svoleiðis en það er hlýtt. Við erum farnir að setja fé út á tiltölulega græn og fín tún og það væsir ekkert um lambfé úti núna,” segir Reynir.
Það er mikið að gera hjá sauðfjárbændum á Suðurlandi og annars staðar á landinu á þessum árstíma þegar sauðburður er að ná hámarki.
„Þetta er gríðarlega mikill annatími og við erum vakandi allan sólarhringinn en bara skemmtilegt á meðan á því stendur. Frjósemin er mjög góð, allega á mínu búi og ég held að hún sé almennt á uppleið hjá sauðfjárbændum, sem er vel bara. Ég þakka það góðri ræktun og svo bara aðbúnaði og fóðrun fyrst og fremst,” segir Reynir.

Reynir Þór segir það draumastarf að vera sauðfjárbóndi.
„Þetta er náttúrulega bara óskaplega skemmtilegt og gefandi að umgangast þessar skepnur og já, það er eiginlega bara málið, þetta er svo skemmtilegt, skemmtileg vinna og gefandi.”
Og lambakjötið, það slær alltaf í gegn.
„Það slær alltaf í gegn og er klassískt og gott,” segir Reynir Þór, bóndi á Hurðarbaki í Flóahreppi.