„Þetta er sánuofninn sem var veggfestur, hann hefur losnað af veggnum með þeim afleiðingum að hann dettur á hliðina og hitinn kveikir í timbrinu, klæðningunni,“ segir Anna Kristín Sigurðardóttir, forstöðumaður Vesturbæjarlaugar, í samtali við fréttastofu. RÚV greindi fyrst frá.
Anna segir starfsmenn sundlaugarinnar hafa brugðist fljótt við og slökkt eldinn. „Út frá því hvernig þetta lítur út þá hefur liðið mjög stuttur tími frá því að þetta gerist. Þetta hefði verið verra ef þetta hefði fengið að grassera lengur.“

Sem betur fer hafi enginn verið inni í sánunni þegar eldurinn kom upp og því voru engin slys á fólki.
Fljótlega hafi svo komið smiður sem fór yfir skemmdirnar. „Þeir sem sagt þurfa að skipta út klæðningunni þannig ég geri ráð fyrir að hún opni vonandi á næstu dögum,“ segir Anna. Ástandið á ofninum sem datt er þó ekki enn vitað en hann verður skoðaður þegar hann er búinn að kólna.

„Við eigum eftir að sjá ástandið á honum en þetta fór allt betur en á horfðist.“
Anna segir þetta vera í fyrsta skipti sem eldur kemur upp í Vesturbæjarlaug. „Starfsmenn hafa aldrei áður þurft að beita slökkvitækjum.“