Fréttamaður fréttastofu er á staðnum og segir að fólk hafi þar staðið og blöskrað þegar hvorki bæjarstjóri né nokkur annar frá bænum hafi komið út og rætt við það. Því hafi verið ákveðið að halda inn á skrifstofurnar.
Verið er að þrýsta á sveitarfélagið að semja við starfsfólk leikskólanna sem er í BSRB, en kjaradeilan virðist enn vera í hnút.

Fólkið hefur spilað háværa barnatónlist frá því að mótmælin hófust og var því haldið áfram inni á bæjarskrifstofunum.
Nú skömmu fyrir klukkan 12 barst tilkynning frá Kópavogsbæ þar sem áréttað er að Kópavogsbær hafi falið Sambandi íslenskra sveitarfélag fullnaðarumboð til kjarasamningsgeðrar. Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri hafi því ekki beina aðkomu að kjaraviðræðunum og ekki áhrif á framgöngu þeirra.
Fréttatilkynning Kópavogsbæjar í heild sinni:
Vegna kjaradeilna bæjarstarfmannafélaga innan BSRB við sveitarfélög í landinu vill Kópavogsbær koma eftirfarandi á framfæri:
Kópavogsbær áréttar að samningsumboð bæjarins liggur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga í kjaraviðræðum bæjarstarfsmannafélaga innan BSRB við sveitarfélög í landinu.
Sveitarfélög, Kópavogur þar með talinn, hefur falið Sambandinu fullnaðarumboð til kjarasamningagerðar við viðsemjendur sína.
Bæjarstjóri Kópavogs hefur þannig ekki beina aðkomu að kjaraviðræðum og ekki áhrif á framgöngu þeirra.
Kópavogsbær hefur skilning á þeim áhrifum sem kjaradeilan hefur á starfsfólk, foreldra og börn og vonast til þess að samningar náist sem fyrst.
Nánari upplýsingar um kjaraviðræður Sambandsins við BSRB veita framkvæmdastjóri og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Sjá má myndir úr Kópavoginum að neðan.



