Undanúrslit um nýja útgáfu af SS pylsulaginu eru ljós, þeir þrír flytjendur sem komast áfram eru Sæborg, Sprite Zero Klan og Gunnar & Benedikt.
Lögin verða spiluð í útvarpi og sjónvarpi í sumar og munu lesendur Vísis geta kosið milli þeirra þriggja. Ásamt lesendum leggur sérstök dómnefnd mat á lögin en hana skipa þau Salka Valsdóttir tónlistarkona, Árni Beinteinn Árnason leikari og Hafþór Úlfarsson, deildarstjóri í markaðsdeild SS.
Gígja Marín á besta frumsamda lagið
Á sama tíma var kosið um besta frumsamda lag flytjenda en þar bar Gígja Marín sigur úr býtum með lagið I know.
Hér fyrir neðan má hlusta á SS pylsulögin sem komust í úrslit og á sigurlag Gígju.
Í ágúst verður tilkynnt hver stendur uppi sem sigurvegari í keppninni um bestu nýju útgáfuna af SS pylsulaginu.
Sigurvegarinn hlýtur að launum tvær milljónir króna, annað sætið hlýtur eina milljón og þriðja sætið fimm hundruð þúsund. Skúrinn er í samstarfi við SS