Vonast er til þess að með þessu verði ekki hægt að lama heilu herstöðvarnar í tiltölulega fáum árásum, komi nokkurn tímann til átaka milli Kína og Bandaríkjanna.
Spenna milli ríkjanna hefur aukist mjög. Meðal annars má rekja þá auknu spennu til ólöglegs tilkalls Kína til nánast alls Suður-Kínahafs og til Taívans, sem ráðamenn í Kína hafa heitið að verði sameinað Kína og það með valdi ef svo þurfi.
Sjá einnig: Xi vill stærra hlutverk á alþjóðasviðinu
Bandaríkjamenn eru meðal þeirra sem hafa heitið því að koma Taívan til aðstoðar verði gerð innrás í eyríkið. Það hafa yfirvöld í Japan einnig gert.
Kínverjar hafa á undanförnum árum lagt mikið púður í hernaðaruppbyggingu og nútímavæðingu. Meðal annars hefur áhersla verið lögð á langdrægar eldflaugar, sem Kínverjar geta notað til að gera árásir á herstöðvar Bandaríkjanna og til að granda flugmóðurskipum á Kyrrahafi.
Sjá einnig: Xi vill her í heimsklassa fyrir árið 2027
Forsvarsmenn bandaríska heraflans óttast nýjar eldflaugar Kína og aukna getu þeirra, samkvæmt frétt Wall Street Journal. Kínverjar eru taldir eiga rúmlega 1.300 langdrægar eldflaugar sem hægt er að skjóta á bandarískar herstöðvar í Austur-Asíu og á Kyrrahafinu. Þar á meðal eru um 250 sem gætu drifið alla leið til Gvam, sem er í tæplega fimm þúsund kílómetra fjarlægð frá meginlandi Kína.
Þá hafa Kínverjar þróað langdrægar og ofurfráar eldflaugar, sem ferðast á margföldum hljóðhraða og á að vera erfitt að skjóta þær niður.
Stríðsleikir sem haldnir eru í Bandaríkjunum, þar sem kannað er hvernig stríð á milli Bandaríkjanna og Kína gæti farið fram, benda til þess að Kínverjar myndu leggja mikla áherslu á árásir á herstöðvar Bandaríkjanna í upphafi átaka.
Sjá einnig: Gífurlegur fórnarkostnaður ráðist Kína inn í Taívan
Á meðal þeirra herstöðva sem talið er að yrðu fyrstar fyrir árásum er Kadena flugstöðin á Okinawa í Japan. Þar eru margar herþotur geymdar og margir hermenn og flugmenn. Bandaríkjamenn eru einnig með viðveru í Suður-Kóreu og á Gvam, auk þess sem þeir eru með nokkur hundruð hermenn á Filippseyjum.
Sjá einnig: Fyrsti fundur ráðamanna Japans og Suður-Kóreu í tólf ár
Búið er að leggja fram frumvarp á þingi í Bandaríkjunum um að flugher Bandaríkjanna fái fjárveitingar til að reisa sterkari flugskýli í umræddum herstöðvum. Samkvæmt WSJ telja æðstu herforingjar flughersins að það dugi ekki til. Það þurfi að þróa kerfi svo hægt sé að dreifa úr flugvélum og öðrum búnaði, stefni í átök.
Því er verið að mynda smáa hópa starfsmanna sem geta farið með skömmum fyrirvara og gert litla flugvelli á eyjum í Kyrrahafi hentuga fyrir herþotur.
Yfirmaður þessarar vinnu sagði í samtali við blaðamann Wall Street Journal að með þessu væri vonast til þess að hægt væri að flækja ákvörðunarferli yfirmann herafla Kína varðandi mögulegar árásir. Þeir gætu gert árás á einn flugvöll en auðvelt væri að nota annan þar nærri.
Fleiri smærri herstöðvar og flugvellir gætu einnig gert Bandaríkjamönnum auðveldara að flytja herafla og hergögn um svæðið. Tilkynnt var í desember að bandaríski herinn hefði gert samning við eigendur fyrirtækisins Bell um þróun nýs farartækis, sem gæti verið notað til að flytja birgðir og menn um lengri vegalengdir en þær þyrlur sem eru nú í notkun geta.