Ráðherrar vildu lítið gefa uppi þegar þeir mættu til fundarins á ellefta tímanum. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fundaði með formönnum flokka í morgun vegna yfirvofandi sex prósenta launahækkunar æðstu ríkisstarfsmanna. Launahækkun sem fjármálaráðherra hefur lýst sem eiginlegri launalækkun vegna verðbólgunnar.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra ræddi stuttlega við Helenu Rós Sturludóttur, fréttamann okkar, þegar hann mætti til fundarins. Hann sagði ríkisfjármál vera efni aukafundarins en ríkisstjórnin fundar vikulega að morgni þriðjudags og föstudags.
„Það bara styttist í síðari umræðu ríkisfjármálaáætlunar á þingi þannig að það er alveg ástæða til að ræða það sérstaklega í ljósi þeirra efnahagsaðstæðna sem eru,“ sagði Willum og játti því að verðbólgan yrði á dagskrá fundarins.
Þó væri ekki skynsamlegt að ræða frekar efni fundarins enda ætti hann að einhverju leyti eftir að komast betur á því á fundinum sjálfum. Þá væri hann boðinn og búinn til að ræða frekar við fjölmiðla.