Rúv fjallaði fyrst um málið.
„Ég var að hjóla úr Norðurbænum í Hafnarfirði. Hjólaði niður hjá Hrafnistu að Herjólfsgötu og þá sá ég hann syndandi í flæðarmálinu,“ sagði Jón Sólmundsson, fiskifræðingur, í samtali við Vísi.

„Síðan hjólaði ég og hann synti þarna við hliðina á mér alveg inn í höfnina að Fjörukránni. Hann kafaði öðru hverju ofan í sjóinn og svo kom hann upp í Hafnargarðinn.“
„Hann var líka forvitinn, það var svolítið af fólki sem stoppaði til að horfa á hann og hann virtist vera að spá í það líka,“ sagði Jón um forvitinn rostunginn.
„Svo fór ég í vinnunni og hann synti út í fjörðinn aftur.“
Aðspurður hvort vinna Jóns hjá Hafrannsóknarstofnun tengist eitthvað rostungum kvað hann svo ekki vera, hann væri í fiskirannsóknum enda fiskifræðingur.

Hann vissi því lítið um rostunga eða hvort þetta væri farandrostungurinn Þór sem hefur heimsótt landið ítrekað undanfarna mánuði.
„Ég veit ekki hvort þetta er sá sami og er búinn að vera fyrir Austan og í Skotlandi en það er ekkert víst.“
„Það gæti alveg eins verið að hann verði eitthvað viðloðandi landið þó það sé ekki endilega í Hafnarfirði. Allavega synti hann út í morgun svo veit ég ekki meir,“ sagði Jón um afdrif rostungsins.
„En þetta eru dýr sem halda sig við ströndina svo það er ekkert ólíklegt að hann sjáist hérna meira,“ sagði Jón að lokum.
