Eyþór, sem er þrítugur, birti færslu á samfélagsmiðlum í gær þar sem sjá má slysið en það varð við upphaf þriðju og síðustu keppni (moto) hans á laugardag, eftir að hann hafði unnið fyrstu tvær.
Segir Eyþór að hann hafi flækst á milli tveggja annarra ökumanna og við það fallið harkalega til jarðar. Ekið hafi verið yfir háls hans og það valdið því að C6-hálsliður hafi brotnað.
Mildi þykir að ekki hafi farið verr og kveðst Eyþór heppinn að hafa sloppið við mænuskaða.
Myndband af slysinu má sjá í Instagram-færslu Eyþórs hér að neðan.
Eyþór var fluttur með þyrlu til Reykjavíkur eftir slysið þar sem hann átti að gangast undir aðgerð. Hann segir frá því á samfélagsmiðlum að notast verði við bein úr mjöðm og títan til að fylla inn í þann hluta hryggjarliðarins sem molnaði.
Eyþór er eins og fyrr segir einn fremsti vélhjólaíþróttamaður landsins, margfaldur Íslandsmeistari, og var um árabil atvinnumaður í íþróttinni.
Fyrir örfáum árum stofnaði hann motocross-akademíuna Dirtbike Online Academy þar sem keppendur í vélhjólaíþróttum geta sótt námskeið á netinu.