„Við vorum miður okkur að heyra af þessu hræðilega slysi í Gröna Lund,“ segir Jökull Júlíusson, söngvari Kaleo, í samtali við Vísi.
Tónleikar sveitarinnar voru blásnir af í kjölfar slyssins og er garðurinn lokaður gestum á meðan rannsókn á tildrögum slyssins fer fram. Vinsæll rússíbani fór út af sporinu á laugardag í garðinum með þeim afleiðingum að einn lést og tíu manns slösuðust alvarlega.
Persónulegir og þægilegair tónleikar
„Okkur fannst nauðsynlegt að beita okkur til góðs fyrir samfélag sem hefur gert svo margt fyrir okkur,“ segir Jökull en bætir því við að það hafi reynst þrautinni þyngra að finna stað undir nýja tónleika.
Samstarfsaðilar sveitarinnar hafi lagt gríðarlega mikið á sig við að finna nýjan stað og varð lendingin lítill tónleikasalur við höfnina í Statsgardsterminalen.
„Húsið er minna en staðirnir þar sem við spilum venjulega þannig að við ákváðum að hafa þetta bara persónulega og minni tónleika. Allur ágóði af tónleikunum og tekjur af öðrum varningi munu renna til aðstandenda. “