Mótið fór fram á Spa Francorchamps brautinni í Belgíu í morgun en mótaröðin er á vegum Alpine vélaframleiðandans sem er með lið í Formúlu 1. Aðstæður voru erfiðar og brautin blaut en kappaksturinn var stöðvaður á það sem átti að vera síðasti hringur keppninnar.
Hollenski ökumaðurinn Dilano van´t Hoff lenti í árekstri við annan bíl og byrjaði bíllinn í kjölfarið að snúast. Annar bíll kom þá á mikilli ferð og keyrði inn í hliðina á bíl Van´t Hoff en skyggni á brautinni var lélegt.
Tveimur og hálfum tíma eftir óhappið greindu forráðamenn mótaraðarinnar (FRECA) frá því í yfirlýsingu að Van´t Hoff hefði látist í slysinu.
We are so sad to learn of the passing of Dilano van 't Hoff today at Spa-Francorchamps.
— Formula 1 (@F1) July 1, 2023
Dilano died in pursuit of his dream to reach the pinnacle of motorsport.
Along with the entire motorsport community, our thoughts are with his family and loved ones.
Stefano Domenicali pic.twitter.com/Kn0gklf9RN
Van´t Hoff var á sínu öðru tímabili í FRECA en hann náði verðlaunasæti í eitt skipti á sínu fyrsta tímabili í fyrra. Áður en hann hóf að keppa á FRECA mótaröðinni keppti hann í Formúlu 4.
Þetta er ekki fyrsta banaslysið sem verður á Spa Francorchamps brautinni en árið 2019 lést Formúlu 2 ökuþórinn Anthoine Hubert í keppni á brautinni eftir að annar bíll ók í hlið bíls hans þar sem hann var stopp á brautinni.