Pólski fjölmiðilinn Super Express greinir frá þessu. Fram kemur að Jaroslaw hafi verið frá borginni Chelm í Póllandi en ekki kemur fram hversu lengi hann hafði verið búsettur hér á landi.
Þekkti hinn grunaða
Vísir greindi frá því þann 17. júní síðastliðinn að tveir menn væri í haldi lögreglu grunaðir um manndráp í Drangahrauni í Hafnarfirði.
Tilkynning um málið barst lögreglu á sjötta tímanum um nóttina og haldið var þegar á vettvang. Í kjölfarið voru tveir karlar handteknir í tengslum við málið, annar í húsi við vettvanginn og hinn þar nærri. Annar mannanna var síðar úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna málsins en hinn var látinn laus úr haldi.
Fram hefur komið að Jaroslaw og sá sem úrskurðaður var í gæsluvarðhald hafi þekkst og munu þeir hafa verið meðleigjendur. Þá hefur komið fram að Jaroslaw hafi að öllum líkindum verið stunginn með hníf.
Þá greindi Vísir frá því þann 22. júní síðastliðinn að hinn grunaði hefði verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til 19. júlí næstkomandi. Fram kom í tilkynningu lögreglu að rannsókn málsins miðaði vel.
„Ég trúi þessu ekki“
Í fyrrnefndri frétt Super Express kemur fram að eiginkona Jarowslaw, Ewa Kamińska, sé búsett í bænum Przeworsk og hann hafi nýtt hvert tækifæri sem gafst til að fara út og heimsækja hana. Þess á milli hafi þau verið í stöðugum samskiptum í gegnum netið.
Samkvæmt upplýsingum Super Express á Ewa barn úr fyrra sambandi sem Jaroslaw gekk í föðurstað. Þá kemur fram í frétt miðilisins að enn sé ekki búið að flytja lík Jaroslaw til Póllands.
Haft er eftir heimildum að Jaroslaw „hafi mögulega átt óvini í sínum hópi.“
Þá er vitnað í færslu sem eiginkonan Ewa birti á Facebook-síðu Jaroslaw þann 19. júní síðastliðinn en þar ritar hún:
„Elskan mín, hvers vegna? Hvers vegna gerðist þetta? Hvers vegna fórstu frá okkur? Öll plönin sem við vorum búin að gera saman. Ég trúi þessu ekki. Ég sakna þín svo mikið. Þú ert og þú varst mín trú á ástina og ég mun aldrei hætta að elska þig. Ég þakka þér frá innstu hjartarótum fyrir allt það sem þú gerðir fyrir okkur. Bíddu eftir okkur og hlúðu að okkur. Hvíldu í friði ástin mín.“