Í tilkynningu frá félaginu er ekki tekið fram nákvæmlega um hvað fundurinn snýst en fréttir bárust af því í gærkvöldi að bæði Sjóvá og VÍS hefðu samþykkt að selja hluti sína í Kerecis í tengslum við yfirtöku á félaginu.
Kerecis framleiðir vörur úr þorskroði, sem eru meðal annars notaðar til meðhöndlunar á sykursýkissárum, brunasárum, munnholssárum og til margskonar uppbyggingar á líkamsvef.
Eini framsögumaður fundarins er Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri og stofnandi Kerecis, en fundarstjóri er Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands. Ólafur Ragnar situr í stjórn Kerecis fyrir hönd fjárfestisins Laurene Jobs, ekkju Steve Jobs sem kenndur var við Apple.
Hægt er að fylgjast með fundinum í spilaranum að neðan.
Fundurinn átti upphaflega að hefjast klukkan 8:30 en var frestað til klukkan níu, vegna seinkunar á flugferð frá Reykjavíkur til Ísafjarðar í morgun.