„Það er rúta á leiðinni úr bænum til þess að flytja þetta fólk austur á Klaustur þar sem þau áttu bókaða gistingu í nótt,“ segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við fréttastofu. Engum hafi orðið meint af.
Rútan bilaði í vaði ár að Fjallabaki við Illagil og ekki gekk að koma henni aftur í gang. Þá reyndi björgunarsveitarfólk að draga rútuna upp úr ánni en allt kom fyrir ekki.

„Það kom upp einhver bilun og það var ekki hægt að koma henni í gang aftur. Það var eiginlega útilokað að ná henni úr ánni með þeim tækjabúnaði sem þarna var. Þó svo að björgunarsveitin hafi verið með svolítið stóran trukk.“