Bandaríkjamenn og Bretar eru meðal einörðustu stuðningsmanna Úkraínu en stjórnvöld vestanhafs eru sögð hafa verulegar efasemdir um að samþykkja aðild ríkisins að Nató, af ótta við að styggja Rússa.
Allir aðilar virðast sammála um að Úkraína muni ekki fá inngöngu á meðan átökunum í landinu stendur en stjórnvöld á Bretlandseyjum hafa talað fyrir því að þegar að því kemur fái Úkraína skjóta aðild, jafnvel þótt það hafi ekki uppfyllt tilskilin skilyrði.
Biden ítrekaði hins vegar í viðtali á CNN í gær að Úkraínumenn væru „ekki reiðubúnir ennþá“ og að endalok átakanna í landinu væru ekki eina skilyrði aðildar.
„Nató er ferli þar sem það tekur nokkurn tíma að uppfylla öll skilyrði; allt frá lýðræðisvæðingu til alls konar annarra málefna,“ sagði forsetinn. Þá sagði hann að leiðtogar Nató þyrftu að leggja fram rökræna áætlun um aðild Úkraínu.
Biden gerði því einnig skóna að á meðan Úkraínumenn stæðu utan bandalagsins gætu Bandaríkjamenn veitt þeim hernaðarlegan stuðning sambærilegan þeim sem þeir veita Ísrael.