Kyana Sue Powers hefur búið á Íslandi frá árinu 2020 og ferðast um landið og deilt upplifun sinni með tæplega hálfri milljón fylgjenda á samfélagsmiðlum.
„Rétt í þessu fann ég fyrir jarðskjálfta af stærðinni 5,1 rétt undir fótum mér. Ég er í lagi en þetta hlýtur að vera það ógnvænlegasta og klikkaðasta sem ég hef upplifað,“ sagði hún í hringrás (e. story) á Instagram í nótt.
Þá segir hún grjóthnullunga hafa losnað úr hrauni við Keili og rúllað um svæðið á óreiðulegan hátt og deilir mynd af stærðarinnar holu sem myndaðist á vegi á svæðinu. Hún segir einnig að sprungur hafi myndast á yfirborði hraunsins og að gufa stígi upp úr jörðinni þar sem hún gerði það ekki áður.