„Það er ekki eins og þetta komi frá einu heimili. Nema það sé einhver sjúklingur sem þar búi sem safni rusli og drasli bæði inni og úti um allt hús,“ segir Atli Hermannsson, hafnarvörður í Kópavogshöfn.
Fara þurfti tvær ferðir á þjónustubíl Kópavogsbæjar með ruslið sem skilið var eftir í hafnargarðinum um helgina. Atli segir magnið nú hafa verið óvenju mikið.
„Þetta voru ekki bara einn eða tveir pokar. Heldur heill þjónustubíll. Það er eins og það sé verið að stinga út úr einhverju rónagreni og moka því þangað. Það eru flísaafgangar og allur andskotinn þarna.“
Alltaf sé eitthvað um að dót sé skilið eftir, en þó alls ekki alltaf.
„Það er alltaf eitthvað um þetta en meira þegar það tekur að skyggja á kvöldin. Þá getur fólk mætt hingað og skilið þetta eftir óáreitt í skjóli myrkurs. Þetta eru myrkraverk.“
Gæti opnað nytjamarkað
Hann segir að fólk hafi skilið eftir allskyns rusl í höfninni. Allt frá húsgögnum til plastrusls.
„Það er ekki langt síðan að það var skilið eftir klósett, vaskur og eldavél. Ég gæti auðveldlega stofnað nytjamarkað. Svo er fólk stundum ekki að ganga almennilega frá og þá fýkur þetta út um allt. Maður verður bara, hvað á maður að segja, fyrir vonbrigðum með þessa dýrategund.“