Í gær var greint frá því í kvöldfréttum stöðvar tvö að hópi flóttafólks hafi verið gert að yfirgefa húsakynni Embættis ríkislögreglustjóra í Hafnarfirði í gær eftir að hafa fengið endanlega synjun um alþjóðlega vernd. Er það í samræmi við ný útlendingalög Jóns Gunnarssonar fyrrverandi dómsmálaráðherra sem samþykkt voru þann 15. mars.
Kristín María Gunnarsdóttir sérfræðingur hjá ríkislögreglustjóra segir að 53 einstaklingum hafa verið tilkynnt um að þjónusta þeirra falli niður og þar af hafi tíu farið með stuðningi stjórnvalda eða eru að undirbúa brottför með aðstoð.
„Þetta er að sjálfsögðu krefjandi verkefni og við erum að eiga við hóp sem er í virkilega viðkvæmri stöðu og svo náttúrulega eru þessi ákvæði í lögum ný. Það hefur ekki reynt á þetta, við erum að reyna framkvæma ákvæði sem hefur ekki verið gert áður og við reynum að gera það eftir bestu getu,“ segir Kristín.
Málin geti þó komið til endurskoðunar hjá kærunefnd útlendingamála og eftir atvikum hjá dómstólum. „Ef þau komast að annarri niðurstöðu en við þá að sjálfsögðu förum við eftir því.“ Búið sé að tilkynna öllum sem hafi fengið endanlega synjun um alþjóðlega vernd um yfirvofandi þjónustusviptingu í bili.
„En síðan gengur þetta út á það að þegar það kemur ákvörðun annað hvort Útlendingastofnun eða kærunefnd útlendingamála það er að segja ákvörðun um endanlega synjun þá fær fólk tilkynningu um að þjónusta falli niður að þrjátíu dögum liðnum,“ segir Kristín og að verkefnið eigi að vinnast jafn óðum.