Greint var frá því í dag að Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra skoði nú þann möguleika að koma upp nýju búsetuúrræði með takmörkunum fyrir fólk sem hefur fengið endanlega synjun um alþjóðlega vernd og misst rétt á húsnæði eða þjónustu.
Hún segir sveitarfélögum ekki bera skylda til að taka við fólki sem sýnir ekki samstarfsvilja og hefur ekki rétt á þjónustu lengur.
Guðrún ræddi málið í Reykjavík síðdegis í dag og tók þar fyrir að um væri að ræða fínna orð yfir flóttamannabúðir en sagði þó að íbúar úrræðisins myndu væntanlega búa við skert ferðafrelsi að einhverju leyti.
Þekkist alls staðar í nágrannalöndum
Guðrún segir að það sé skylda samkvæmt Brussel-samningnum um Schengen-samstarfið, sem Ísland á aðild að, að halda úti lokuðu búsetuúrræði.
„Við erum eina landið í þessu samstarfi sem uppfyllir ekki þetta skilyrði. Þar með erum við að veikja samstarfið og þátttöku okkar innan Schengen samstarfsins.“
Fólk dvelji jafnvel í nokkur ár
Hún segir að ekki sé búið að útfæra hvernig búsetuúrræðið verður takmarkað en segir þó að væntanlega verði íbúar þess sviptir ferðafrelsi að einhverju leyti. Þar nefnir hún til dæmis hugmyndir um að fólk þurfi að melda sig við brottför á morgnanna og heimkomu á kvöldin.
„Það er væntanlega með skert ferðafrelsi, það er hér í ólögmætri dvöl,“ segir Guðrún.
En hvað getur fólk verið lengi í slíku úrræði?
„Það eru dæmi um það í löndunum í kringum okkur að fólk hefur verið töluvert lengi, jafnvel nokkur ár og nágrannaþjóðir okkar allar eru með svona úrræði. Nágrannaþjóðir okkar allar, og þá er ég að tala um Norðurlöndin, eru sömuleiðis öll með svona þjónustuskerðingar eins og við erum hér að taka upp og við erum ekki að gera neitt annað hér núna, íslensk stjórnvöld, en að samræma okkar útlendingalög því sem er að gerast í nágrannalöndunum og löndunum í kringum okkur.“
Viðtal við Guðrúnu í Reykjavík síðdegis má heyra í spilaranum hér að neðan: