HM kvenna í handbolta hefst þann 29. nóvember næstkomandi og fer það fram í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Íslenska liðinu var úthlutað boðssæti (e. wild card) og mun leika í riðli með Frakklandi, Slóveníu og Angóla.
Angóla er einmitt eitt þeirra liða sem mun etja kappi við íslensku stelpurnar á æfingamóti sem fram fer í Noregi helgina áður en mótið hefst, nánar tiltekið 23.-26. nóvember. Ásamt Íslandi og Angóla munu Pólland og ríkjandi heimsmeistarar Noregs, undir stjórn Þóris Hergeirssonar, mæta til leiks.
Til stóð að Ísland myndi leika tvo leiki gegn B-liði Noregs í aðdraganda heimsmeistaramótsins, en nú fær liðið enn erfiðara verkefni áður en mótið hefst. Þá mun liðið einnig leika tvo leiki í undankeppni EM í október áður en HM hefst, annars vegar gegn Lúxemborg, og hins vegar gegn Færeyjum.