Eins og fram hefur komið ákvað Jonas bróðirinn og Game of Thrones leikkonan að binda enda á fjögurra ára hjónaband sitt á dögunum. Þau eiga saman tvær dætur og lífið virtist leika við hjónin sem giftu sig tvisvar árið 2019, í Las Vegas og í Frakklandi.
Bandarískir slúðurmiðlar hafa nú greint frá því að það hafi verið Jonas bróðirinn sem sótti um skilnað. Hefur PageSix eftir ónefndum heimildarmanni sem sagður er vera náinn hjónunum að partýstand Turner hafi farið öfugt ofan í söngvarann.
„Henni finnst gaman að djamma, á meðan honum finnst gott að vera heima. Þau lifa mjög ólíkum lífsstíl,“ hefur bandaríski slúðurmiðillinn eftir hinum ónefnda heimildarmanni. Fullyrt er að þau Turner og Jonas hafi gert kaupmála sín á milli þegar þau giftu sig og því sé engra deilna að vænta á milli þeirra nú.
Að sögn PageSix ætla hjónin þá að deila forræði yfir dætrum sínum, hinni þriggja ára gömlu Willu og eins árs dóttur þeirra, hvers nafn þau hafa aldrei sagt frá opinberlega. Joe er sagður hafa leitað til stjörnulögfræðingsins Tom Sasser, sem áður aðstoðaði golfarann Tiger Woods þegar hann skildi við fyrirsætuna Eli Nordegren.