Frá þessu greinir Morgunblaðið.
Rannsókn málsins stendur nú yfir en ekki hefur fengist upp gefið hvort matvælin voru í eigu einstaklings eða fyrirtækis né hvar þau fundust. Tíu heilbrigðisfulltrúar komu að umræddri aðgerð, sem var framkvæmd í síðustu viku.
Um var að ræða alls konar matvæli, bæði kælivöru og þurrvöru.
„Við komumst á snoðir um ólöglegan matvælalager, þar sem meðal annars voru frystikistur með ýmiss konar matvælum. [...] Við skoðuðum matvælin þegar við komum þarna inn og það var fljóttekin ákvörðun að það þyrfti að farga þeim öllum. Matvælin voru geymd við þannig aðstæður að okkar mat var að þau væru óneysluhæf,“ hefur Morgunblaðið eftir Óskari Ísfeld Sigurðssyni, deildarstjóra matvælaeftirlits hjá heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.
Um var að ræða nokkur tonn.
Óskar sagðist ekkert geta fullyrt um hvað átti að gera við matvælin né sagðist hann hafa upplýsingar um að þau hafi verið seld til að mynda veitingastöðum.