Þetta hefur Wall Street Journal eftir háttsettum yfirmönnum Hamas- og Hezbollah vígasveita, sem eru báðar styrktar af stjórnvöldum í Íran.
Í umfjöllun WSJ kemur fram að yfirmenn Byltingarvarða Írans (IRGC), deildar innan íranska hersins, hafi unnið með Hamas-samtökunum frá því í ágúst við að skipuleggja árásir úr lofti, á landi og í sjó. Vígamönnum tókst að brjóta niður varnarlínur Ísraela og hafa raunar ekki komist jafn langt inn í land Ísraels frá Yom Kippur stríðinu svokallaða árið 1973.
Höfðu ekki tengt Íran við árásina
Smáatriðum árásarinnar var lýst á fundum þar sem viðstaddir voru fulltrúar íranska hersins, Hamas og Hezbollah í Beitut, höfuðborg Líbanon. Þetta hefur WSJ eftir yfirmönnum innan vígasveitanna.
Bandarískum yfirvöldum hafði ekki tekist að tengja Íran við árásir Hamas. CNN hafði eftir Antony Blinken í dag að vísbendingar þess efnis lægju ekki fyrir enn. Hann kvaðst hins vegar meðvitaður um langt samband vígahópa og Írans.
Haft er eftir Mahmoud Mirdawi, háttsettum yfirmanni innan Hamas, að sveitin hafi skipulagt árásina eins síns liðs. „Þetta er ákvörðun Palestínu og Hamas,“ segir hann.
Í kvöld kom öryggisráð Sameinuðu þjóðanna saman vegna ástandsins. Öryggisráðinu tókst ekki að koma sér saman um fordæmingu árásanna en sendifulltrúi Bandaríkjanna gaf það sterklega til kynna að Rússar hefðu staðið því í vegi. Sendifulltrúi Írans vildi ekki tjá sig við fjölmiðla um aðkomu Írans að árásunum.
Sagðir vilja sækja að Ísrael úr öllum áttum
Æðsti leiðtogi Írans, Ayatollah Ali Khamenei, fagnar árás Hamas-liða á X, áður Twitter, og segir ljóst að yfirráð Zíonista á landssvæðinu muni brátt líða undir lok.
Bein þátttaka Írans í stríðinu sem nú geisar myndi færa átök Ísraels og Írans á yfirborðið. Með því eru líkur taldar á að átökin við landamæri Ísraels, úr öllum áttum, myndu stigmagnast. Háttsettir yfirmenn ísraelska hersins hafa heitið því að láta til skarar skríða gegn íranska hernum og æðstu yfirmönnum hans, verði írönsk yfirvöld fundin sek um að drepa Ísraela.
Til lengri tíma litið er áætlun herdeildarinnar írönsku, Byltingarvarða Írans, að sækja að Ísrael úr öllum áttum, að því er fram kemur í umfjöllun WSJ. Hezbollah úr norðri, ásamt öðrum palestínskum vígahópum, og Hamas frá Vesturbakkanum, með aðstoð íslanmska Jihad.