Klukkan 10:30 í dag voru á dagskrá Alþingis óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra. Stjórnarandstöðuþingmenn ákváðu þó að spyrja Bjarna ekki, og sumir þeirra héldu því fram að það væri vegna þess að hann væri ekki ráðherra lengur.
„Það er ótrúlegur aumingjaskapur að þora ekki í fyrirspurnir við ráðherra um þetta mál sem þau tjá sig talsvert um á öðrum vettvangi,“ segir Hildur um ákvörðun stjórnarandstöðunnar.
Hún segir liggja fyrir að stjórnarandstaðan þori ekki að ræða álit umboðsmanns Alþingis sem er ástæða þess að Bjarni segir af sér, jafnvel þó hann segist ósammála forsendum þess.
„Ég held að það sýni ráðaleysi varðandi þetta mál. Þeim finnst auðveldara að fullyrða eitthvað þar sem þeim er ekki svarað heldur en að taka samtalið við ráðherra.“
Hló yfir hugmynd um eigin ráðuneyti
Aðspurð um hvort hún væri sjálf á leið í ráðherrastól brast Hildur við með því að skella upp úr.
„Nei alls ekki. Ég átti ekki von á þessari spurningu,“ svaraði hún hlægjandi
Hildur fundaði í dag með forystufólki stjórnarflokkanna um komandi þingvetur. Hún segist ekki vita hvort Bjarni Benediktsson muni fara í annan ráðherrastól, eða hætta alfarið sem ráðherra. Hún voni þó að hann haldi áfram.