Á vef Veðurstofunnar segir að það sé nokkur óvissa í spá Veðurstofunnar þar sem úrkoma í fjalllendi á svæðinu sé margfalt meiri í háupplausnarlíkani Veðurstofunnar en grófari líkönum.
„Eins og fram hefur komið er spáð mikilli uppsafnaðri úrkomu með töluverðri ákefð allan föstudaginn í grennd við jöklana á suður- og suðausturlandi. Mest verður úrkoman í austanverðum Vatnajökli, Mýrdalsjökli og undir Eyjafjöllum.
Gera má ráð fyrir snjókomu í efstu fjallatoppa en rigningu neðan við 900–1000 m h.y.s. Það er ekki óalgengt að það rigni mikið á þessum svæðum en þar sem spáin gerir ráð fyrir óvenjumikilli ákefð og uppsafnaðri úrkomu á tæpum sólarhring er rétt að vara við aukinni skriðuhættu undir austanverðum Vatnajökli og vestur að Eyjafjöllum. Það mun draga hratt úr úrkomuákefð aðfaranótt laugardags og spár gera ráð fyrir því að það muni stytta upp seinnipartinn á laugardaginn og dregur þá hratt úr skriðuhættunni.
Vatnavextir:
Einnig má gera ráð fyrir þó nokkrum vatnavöxtum á svæðinu frá Eyjafjöllum að austanverðum Vatnajökli, en þó sérstaklega í kringum Mýrdalsjökul og sunnanverðan Vatnajökul austan Öræfa. Á þeim svæðum eru auknar líkur því að ár og lækir geti flætt yfir bakka sína og fjallvegir verði ófærir. Í kjölfar þess að byrjar að draga úr úrkomunni á aðfararnótt laugardags ætti rennsli í ám og lækjum á svæðinu að fara minnkandi,“ segir í tilkynningunni.