Garcia tryggði sér titilinn um nýliðna helgi þegar keppnishelgi F1 Academy fór fram á Circuit of The Americas í Bandaríkjunum.
F1 Academy er á sínu fyrsta tímabili en mótaröðinni er ætlað að greiða götu kvenna upp í Formúlu 1 mótaröðina og eru mörg lið þar sem koma að akademíunni.
Garcia segir það hafa verið tilfinningaþrungna stund þegar að titillinn var í höfn.
„Það gerðu vart um sig margar mismunandi tilfinningar,“ segir Garcia í viðtali við F1.com. „Mér vöknaði um augun þegar að ég kom í mark. Ég grét en það var vegna allrar erfiðisvinnunnar sem liggur að baki þessum titli hjá okkur í liðinu.“

Garcia ekur fyrir lið PREMA Racing og segir hún sigur síðustu helgar standa upp úr hjá sér á tímabilinu.
Um var að ræða fyrstu keppnishelgina þar sem F1 Academy og Formúla 1 eru í samfloti og Garcia fann fyrir áhrifum þess.
„Ég myndi segja að þessi sigur sé sá besti. Við vorum í Austin með Formúlu 1, það voru margir í stúkunni og stemningin eftir því.“

Hún segir það að hafa verið samhliða Formúlu 1 hafa aukið á spennuna sem fylgdi því að verða meistari.
Garcia telur þetta fyrsta tímabil F1 Academy slá tóninn fyrir það sem koma skal. Á næsta tímabili munu allar keppnishelgar mótaraðarinnar vera í samfloti með Formúlu 1 og munu öll lið síðarnefndu mótaraðarinnar vera með einn kvenkyns ökumann á sínum snærum.