Upp úr klukkan fimm í nótt jókst skjálftavirkni vestan við Eldvörp, sem er í um sex kílómetra fjarlægð frá Þorbirni. Stærsti skjálftinn mældist 4,2 að stærð og fannst víða í byggð, meðal annars á Akranesi. Skjálftavirkni er enn talsverð á svæðinu en örlítið hefur dregið úr virkni frá því í nótt. Skjálftarnir sem nú mælast eru svokallaðir „gikkskjálftar“ sem eru viðbrögð við spennulosun vegna kvikuinnskots við Þorbjörn.

Samkvæmt nýjustu aflögunargögnum heldur landris við Þorbjörn áfram á sama hraða. Ný líkön um áætlaða staðsetningu kvikuinnskotsins benda ekki til neinna breytinga á staðsetningu kvikunnar, sem liggur á um fjögurra til fimm kílómetra dýpi norðvestur af Þorbirni.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands. Þar segir enn fremur: „Mikilvægt er að benda á það sem áður hefur komið fram að atburðarrásin á svæðinu við Þorbjörn er hluti af margþættu ferli kvikuhreyfinga í jarðskorpunni á Reykjanesskaga. Þessi ferli hafa áhrif á stóru svæði, þar á meðal Fagradalsfjall þar sem þensla heldur áfram frá því í ágúst.“
Vísir er með vefmyndavél uppi á Þorbirni og hægt er að fylgjast með svæðinu í beinni útsendingu hér að neðan.