Þetta kemur fram í eftirlitsskýrslu HER um heimsókn eftirlitsins þann 26. september. Grunur lék á um að í húsnæðinu væri ólögleg matvælastarfsemi og ólögleg matvælageymsla.
„Þegar mætt var á staðinn var bíll að keyra frá bakhlið hússins en bílstjóra virtist brugðið að sjá heilbrigðisfulltrúa, stuttu seinna hlaupa tveir menn frá bakhlið húss og á bak við runna. Ekki náðist að ræða við þá,“ segir í skýrslunni.
Hlutir tengdir matvælastarfsemi voru fyrir utan hurð á bakhlið hússins við rampinn, hlutir eins og matvælabakkar, hrísgrjónapottur, pottur og fleira tengt matvælastarfsemi. Í framhaldinu kom annar bíll keyrandi á svæðið og að rampnum.
„En keyrði svo í burtu þegar heilbrigðisfulltrúar reyndu að tala við fólkið í bílnum og báðu þau að opna bílrúðu. Bílstjóri lét eins og hann sæi ekki heilbrigðisfulltrúa og keyrði í burt.“
Fulltrúar HER spurðust fyrir um geymsluhúsnæðið hjá nærliggjandi fyrirtækjum en fengu engar upplýsingar um leigjanda kjallarans. Tekin var ákvörðun um að innsigla húsnæðið með límandi eftirlitsins og skilja eftir skilaboð til ábyrgðaraðila sem síðar kom í ljós að var Vy-þrif hreinsunarþjónusta.

Handskrifuð skýrsla var límd á hurðar húsnæðisins og ábyrgðaraðila bent á að óheimilt væri að fara inn í rýmið og hafa þyrfti samband við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur áður en farið er í rýmið.
Næstu daga átti heilbrigðiseftirlitið eftir að mæta nokkrum sinnum í Sóltúnið, fara inn í rýmið og hitta fulltrúa Vy-þrifa. Í húsnæðinu fundust meðal annars fimm tonn af matvælum sem voru nýkomin til landsins og eftirlitið telur ljóst að staðið hafi til að koma í dreifingu. Þá reyndi starfsfólk Vy-þrifa að koma matvælum undan eftir að hafa boðist til að koma að förgun matvælanna.

Auk þess eru vísbendingar um að fólk hafi gist í rýminu innan um matvælin. Dauðar rottur og mýs fundust í rýminu, göt á fjölmörgu sekkjum og úrgangur úr meindýrum á gólfum.
