Þetta kemur fram í athugasemdum jarðvísindamanns hjá Veðurstofu Íslands. Þar segir að sjö hundruð skjálftar hafi mælst við kvikuganginn, allir undir þremur að stærð.
Líkön sýna fimmtán kílómetra langan kvikugang sem liggur rétt norðvestan Grindavíkur. Samkvæmt gögnum gærdagsins lá kvikan á um 800 metra dýpi þar sem hún er grynnst.
„Út frá þessu má álykta að verulegar líkur eru á að kvikan nái að brjóta sér leið til yfirborðs. Auknar líkur eru einnig á að kvika geti komið upp á hafsbotni,“ segir í athugasemdum jarðvísindamanns á Veðurstofunni.
Ekki víst að gosórói sjáist á mælum áður en gos hefst
Dregið hafi mikið úr jarðskjálftavirkni síðasta sólarhringinn.
„Talið er að megin ástæða þess sé mikil spennulosun á svæðinu vegna jarðskjálfta síðustu daga og aflögunar vegna kvikugangsins. Vegna spennulosunarinnar er líklegt að kvikan eigi greiða leið til yfirborðs og því er ekki hægt að gera ráð fyrir því að gosórói sjáist á mælum áður en eldgos hefst.“