Í vikunni skilaði sérfræðingahópur sem Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra skipaði í vor af sér skýrslu til ráðherra sem ber heitið „Aðgerðir gegn riðuveiki - ný nálgun með verndandi arfgerðum“.
Í skýrslunni er að finna greiningu hópsins á núverandi stöðu og tillögur að útfærslu við ræktun fjár með verndandi arfgerðir.
Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir þekkir vel innihald skýrslunnar.
„Aðal ráðgjöfin er að Íslandi ætti að setja sér áætlun, landsáætlun um hvernig standa á að ræktun með verndandi arfgerðum og að þetta verði í rauninni sameiginlegt plagg, sem ráðuneytið stendur að, Bændasamtökin, sauðfjárbændur og Matvælastofnun þannig að við komum okkur saman um í megindráttum hvernig á að standa að þessu og hver á að gera hvað þannig að við stígum öll í takt og göngum í takt í þessum aðgerðum á næstu árum og áratugum,” segir Sigurborg.
Sigurborg segir að nýja arfgerðin muni breyta öllu ef vel tekst til varðandi riðuna.
„Já, ef að við ræktum hana upp þá mun hún breyta miklu með það að markmiði að reyna að útrýma riðuveiki á Íslandi.”

En er raunhæft að útrýma riðuveiki fyrir fullt og allt?
„Það er raunhæft en það tekur tíma. Það þarf þolinmæði og við þurfum samhliða ræktun að stöðva að smitefnin nái að dreifa sér og reyna að gera allt sem við getum þar þannig að það sé ekki að dreifa sér frá viðkomandi bæ eða magnist upp á bænum,” segir Sigurborg.