Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar sagði í fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun að samkvæmt frumvarpinu lækkuðu vaxtabætur um 25 prósent milli ára. Að óbreyttu muni fimm þúsund manns að auki detta út úr vaxtabótakerfinu og húsnæðisbætur lækkuðu þótt leiguverð hefði hækkað á árinu og barnabætur lækkuðu aðraungildi vegna verðbólgunnar.
„Það hefur ekkert frumvarp komið fram um breytingar á húsaleigulögum til að styrkja stöðu leigjenda. Þrátt fyrir ítrekuð loforð frá innviðaráðherra. Engin leigubremsa. Lítið gerist þrátt fyrir áframhaldandi þrýsting á húsnæðismarkaði. Þetta eru staðreyndir málsins,“ sagði Kristrún.
Ríkisstjórnin gæti ekki skilað af sér óábyrgum fjárlögum í skjóli jarðhræringa á Reykjanesi. Það væri lykilatriði fyrir Grindvíkinga og alla landsmenn að ríkisstjórn notaði tækifærið við gerð fjárlaga til að styrkja getu fólks til að takast á við áföll.
„Hvernig stendur á því að þessi ríkisstjórn sem ætlar að halda utan um fólkið í landinu er að skerða barnabætur að raunvirði til tekjulægsta fólksins. Hvernig stendur á því að húsnæðisbætur fara lækkandi á milli ára, þrátt fyrir verðbólgu. Þessum spurningum verðum við að svara þrátt fyrir ástandið sem er til staðar í Grindavík. Við tökum öll höndum saman í tengslum við það. En við getum ekki horfið frá grundvallar verkefnum í efnahagsmálum þjóðarinnar,“ sagði formaður Samfylkingarinnar.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði unnið að ýmsum kerfisbreytingum til að mynda á barnabótakerfinu. Framlög til þess muni aukast um 1,4 milljarða króna á næsta ári.
„Ég vil líka minna á að stuðningur við barnafjölskyldur er hlutfallslega mikill á Íslandi þegar borið er saman við Norðurlöndin. En hann er ólíkur. Þá er ég að tala um niðurgreiðslu á þjónustu. Þetta birtist í samanburði OECD á stuðningi ríkja við barnafjölskyldur, þar sem við tölum um stuðning við barnafjölskyldur og auðvitað leikskólakerfið,“ sagði Katrín Jakobsdóttir á Alþingi í morgun.