Talsmaður fangelsisyfirvalda segir að reynslulausninni fylgi skilyrði. Pistorius megi ekki fara frá Pretoriu, þar sem hann mun búa, án leyfis yfirvalda. Þá muni hann sækja reiðimeðferð. Hann verður á reynslulausn í fimm ár.

Meira en tíu ár eru liðin frá því Pistoius skaut Reevu Steenkamp, kærustu sína, til bana í febrúar 2013. Hann skaut hana í gegnum hurð að baðherbergi þeirra og hefur haldið því fram að hann hafi talið að innbrotsþjófur hefði verið þar inni um miðja nótt. Hann og Steenkamp höfðu verið að rífast.
Pistorius, sem varð 37 ára gamall í vikunni, hefur setið í fangelsi frá árinu 2014, þegar hann var fyrst dæmdur og það fyrir manndráp. Dómur hans var svo árið 2017 þyngdur í þrettán ár og fimm mánuði.
Hann sótti um reynslulausn fyrr á þessu ári en umsókninni var hafnað í mars. Henni var hafnað á þeim grundvelli að hann hafði ekki afplánað nóg af dómi sínum til að eiga rétt á reynslulausn. Var honum tjáð að hann gæti fyrst sótt um í ágúst 2024.
Í Suður-Afríku geta fangar, sem dæmdir eru fyrir alvarleg brot eins og morð, sótt um reynslulausn eftir að hafa afplánað minnst helming af dómi þeirra.
Úrskurðurinn í mars reyndist þó rangur vegna mistaka sem gerð voru af Hæstarétti Suður-Afríku og fékk hann því að sækja aftur um reynslulausn.
Pistorius var þjóðhetja eftir afrek sín í frjálsum íþróttum fatlaðra og vakti líka heimsathygli fyrir að keppa við heilbrigða á stórmótum eins og Ólympíuleikum. Hann missti báða fætur ellefu mánaða gamall en notaðist við stoðtæki, meðal annars frá Össuri. Pistorius vann alls sex gullverðlaun á Ólympíumótum fatlaðra frá 2004 til 2012.
Sjá einnig: Oscar Pistorius gæti verið sleppt úr fangelsi í dag
Hann hefur ekki sést opinberlega frá því hann hóf afplánun sína. Móðir Steenkamp lagði gegn því að Pistoriusi yrði veitt reynslulausn í mars og sagðist hún ekki telja að Pistorius hefði sýnt iðrun eða að hann væri endurhæfður.
