Stærsti hluti fatlaðs fólks á erfitt með að ná endum saman eða 75 prósent. Ríflega þriðjungur býr við fátækt og helmingur metur fjárhagsstöðu sína verr en fyrir ári.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri rannsókn Vörðu, rannsóknastofnunnar vinnumarkaðarins og ÖBÍ réttindasamtaka. Könnunin var kynnt á blaðamannafundi í morgun. Ríflega nítján þúsund manns voru í hópi þeirra sem voru beðnir um að taka þátt og af þeim svöruðu um 3600. Kristín Heba Gísladóttir framkvæmdastjóri Vörðu segir niðurstöðurnar sláandi.
„Niðurstöðurnar eru þær að fjárhagsstaða þeirra sem eru á örorkulífeyri, endurhæfingarlífeyri og örorkustyrk er mjög slæm á öllum mælikvörðum. Einhleypir foreldrar standa þarna sérstaklega illa. Þá er andleg líðan slæm hjá gríðarlega stóru hlutfalli hópsins, mikil félagsleg einangrun. Fólk hefur þurft að neita sér um heilbrigðisþjónustu. Fatlað fólk hér á landi stendur ekki við sama borð og aðrir í samfélaginu. Fólkið hefur ekki sömu tækifæri til mannsæmandi lífs,“ segir Kristín.
Hún segir að það hafi komið rannsakendum á óvart hversu sláandi niðurstöðurnar eru.
„Það var ekkert sem gat undirbúið okkur hjá Vörðu fyrir að niðurstöðurnar yrðu svona slæmar fyrir þennan hóp. Við fórum ítrekað yfir þær sökum þess hvað þær voru sláandi. Þetta voru niðurstöður eins og að þriðjungur einhleypra foreldra í hópnum býr við sárafátækt.“
Ráðmenn þurfi að bregðast við
Alma Ýr Ingólfsdóttir formaður ÖBÍ segir að ráðamenn verði að bregðast við.
„Það þarf að hlusta og vinna með þessar niðurstöður. Auka samráð og samtal,“ segir Alma.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB segir kerfið hafa brugðist þessum hópi fólks
„Þetta er saga velferðarkerfis sem hefur brugðist og það aðgerðir til. Skilvirkasta leiðin er í gegnum barnabótakerfið og húsnæðisstuðning,“ segir Sonja.