Talið er að um sex hundruð þúsund almennir borgarar séu í sjálfheldu á átakasvæðunum, þeim hefur verið ráðlagt að flýja en hafa ekki í nein hús að venda. Palestínskur blaðamaður breska miðilsins BBC í Khan Yuonis segir loftárásir viðvarandi og allt leiki á reiðiskjálfi. Þá eru átök að breiðast út til Vesturbakkans.
Palestínskt þorp nærri borginni Hebron hefur til að mynda verið jafnað við jörðu með jarðýtu. Um tvö hundruð íbúar þorpsins höfðu yfirgefið það eftir að árásargjarnir ísraelskir landnemar, með fulltingi hermanna, höfðu þjarmað að þeim. Herskáir ísraelskir landnemar hafa verið staðnir að beitingu ofbeldis í síauknum mæli á Vesturbakkanum.
Hafa stjórnvöld bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi fordæmt aðgerðir þeirra og jafnvel kallað eftir því að refsingum verði beitt. Landnemarnir fá stuðning frá stjórnmálamönnum og öðrum hátt settum embættismönnum og þurfa ólíklega að gjalda fyrir gjörðir sínar og skemmdarverk, eftir því sem fram kemur á fréttavef BBC.