Hópurinn safnaðist saman klukkan 13 við utanríkisráðuneytið á Rauðarárstíg þar sem Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir flutti erindi. Að því loknu gekk hópurinn niður Laugaveginn og að Austurvelli þar sem er skipulögð dagskrá.
Salvör Gullbrá sagði í erindi sínu mannréttindasáttmála og samfélagssáttmála „verða að marklausu hjali“ í höndum stjórnmálafólks á Íslandi sem „væli yfir mótmælaaðgerðum“ og á þá við gagnrýni á aðgerðir mótmælenda á föstudag þegar glimmeri var hent á utanríkisráðherra, Bjarna Benediktsson.
„Palestína er það fyrsta sem ég hugsa um þegar ég vakna og það síðasta sem ég hugsa um áður en ég sofna. Á hverjum morgni vakna ég og vona að þetta sé búið, að ráðamenn heimsins ætli loksins að stoppa þetta. Ég hef orðið fyrir vonbrigðum í 64 daga í röð. Í 64 daga hefur Ísraelsríki fengið að komast upp með að drepa fyrir augunum á okkur saklausa borgara af meiri grimmd og mannvonsku en hægt er að ímynda sér,“ sagði Salvör og að atburðir síðustu tveggja mánaða hafi opnað augu fólks.
Fólk sé reitt og hafi þess vegna gripið til aðgerða. Ráðamenn virðist á sama tíma ekki jafn reiðir.
„Heldur alvarlegra finnst utanríkisráðherra að fá glimmer á jakkafötin en að hann hafi með orðum sínum og gjörðum sem utanríkisráðherra samþykkt og stutt þjóðarmorð á Palestínu. Sagðirðu árás? Sagði Bjarni þegar hann var spurður um skoðun sína á sprengjuárás Ísraels á flóttamannabúðir. Árás er of djúpt í árinni tekið, en glimmersturtan var hins vegar út fyrir allan þjófabálk, en Bjarni sagði í Facebook-færslu um atvikið í gær að hann teldi að “samfélaginu farnist best ef við öll sýnum leikreglum þess virðingu”. Ég er sammála því, en við Bjarni erum ekki sammála um hverjar leikreglur samfélagsins er,“ sagði Salvör.
Brot á leikreglum kallist stríðsglæpir
Salvör sagði leikreglur samfélagsins ekki leyfa það að „saklaust fólk sé drepið, sært, svelt, og heimili þess eyðilögð.
„Leikreglur samfélagsins eiga ekki að virka þannig að eitt ríki, Bandaríkin, geti þvert á alla siðferðiskennd heimsbyggðarinnar hafnað því með neitunarvaldi sínu í Öryggisráði SÞ að fjöldamorðin á Gaza séu stöðvuð. Leikreglur samfélagsins leyfa ekki að stjórnmálafólk geri lítið úr þjóðarmorði á Palestínumönnum með því að kalla stríðsglæpi Ísraelsríkis sjálfsvörn. Leikreglur samfélagsins leyfa ekki dráp á 63 blaðamönnum, 133 starfsmönnum Sameinuðu þjóðanna, 283 heilbrigðisstarfsmönnum, óteljandi árásir á spítala, flóttamannabúðir og skóla. Reyndar er allt þetta svo mikil brot á leikreglum samfélagsins að það kallast stríðsglæpir,“ sagði Salvör.
Fundur stendur nú á Austurvelli en þar er fundarstjóri Ilmur Kristjánsdóttir. Þar flytja erindi Sayed Atahan og Bergþóra Snæbjörnsdóttir. Davíð Þór Katrínarson leikari flytur ljóð eftir Refaat Alareer.